Lög og reglur

Lög Náttfara – bifhjólasamtaka Þingeyinga:

Hér eru lög Náttfara sem voru samþykkt með breytingum á aðalfundi 18. apríl 2009.
Hægt er að sjá breytingarnar undir liðnum “fundargerðir” hér á heimasíðunni.

1. gr. Nafn
Nafn samtakanna er Náttfari – bifhjólasamtök Þingeyinga.

2. gr. Heimili
Heimili samtakanna og varnarþing skal vera í Þingeyjarsýslu, að jafnaði á heimili formanns.

3. gr. Tilgangur
Tilgangur samtakanna er að;
- að vera félag bifhjólafólks í Þingeyjarsýslu og annarra sem þess óska,
- gæta hagsmuna félagsmanna á opinberum vettvangi,
- stuðla að bættri umferðarmenningu með góðu fordæmi og
- hjóla saman og skemmta sér og öðrum.

4. gr. Inntaka félaga
Allt áhugafólk um bifhjól getur fengið inngöngu í samtökin, að því tilskyldu að skilyrði fyrir inntöku séu uppfyllt, en þau eru að:
1. Umsækjandi sé orðin fullra sautján ára og hafi áhuga á bifhjólum.
2. Umsækjandi hafi greitt fullt inntökugjald sem er óendurkræft.
Stjórn afgreiðir umsókn um inngöngu í samtökin sem staðfest skal á næsta aðalfundi.

5. gr. Fullgildur félagi
Fullgildir félagar eru þeir einir sem greitt hafa inntökugjald/árgjald samtakanna og stjórn hefur ekki samþykkt að vísa úr samtökunum sbr. ákvæði 7. gr. Einungis fullgildir félagar mega bera einkennismerki Náttfara.

6. gr. Úrsögn
Vilji félagi segja sig úr samtökunum skal hann gera það skriflega til stjórnar. Hafi félagi ekki greitt árgjald fyrir lok þess árs sem um ræðir skal það skoðað sem úrsögn og viðkomandi strikaður af félagaskrá.

7. gr. Brottvísanir
Hægt er að vísa einstaklingi úr samtökunum hafi hann sýnt að hann sé ekki þess verður að bera merki samtakanna. Til þess þurfa fimm fullgildir meðlimir að leggja fram sína skriflegu, rökstuddu kæruna hver til stjórnar. Stjórn afgreiðir kröfu um brottvísun sem staðfest skal á næsta aðalfundi. Félagar sem vísað er úr samtökunum skulu fjarlægja einkennismerki Náttfara af mótorhjólafatnaði sínum strax.

8. gr. Gjöld
Rekstur samtakanna skal fjármagnaður með félagsgjöldum, útgáfustarfsemi og öðrum fjáröflunum. Aðalfundur samtakanna ákveður félagsgjöld fyrir ár hvert.

9. gr. Sjóður
Tekjur renna í sjóð samtakanna og skal honum varið í framkvæmdir, rekstur og að öðru leyti eftir settum reglum á hverjum tíma. Enginn félagi samtakanna hefur tilkall til hluta af sjóðnum þótt hann hverfi úr samtökunum eða þeim sé slitið.

10. gr. Útgáfa
Stjórn ber að halda úti heimasíðu.

11. gr. Boðun aðalfundar
Haldinn skal aðalfundur fyrir maí lok ár hvert. Skal þar taka fyrir venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt lögum samtakanna. Stjórn boðar til aðalfundar með a.m.k. tíu daga fyrirvara. Boða má aðalfund með tilkynningu á heimasíðu samtakanna eingöngu; ekki þarf að senda út skriflegt fundarboð til hvers félaga. Eintak af niðurstöðum endurskoðaðra ársreikninga og fundargjörð aðalfundar skal birt í fréttariti samtakanna að loknum aðalfundi. Aðalfundur er því aðeins löglegur sé löglega til hans boðað.

12. gr. Aðalfundur
Rétt til setu á aðalfundi hafa fullgildir félagar. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa einungis mættir fullgildir félagar.

Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Inntaka nýrra félaga
3. Stjórn og nefndir gefa skýrslu um starfsemi liðins árs
4. Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga liðins árs
5. Ákvörðun árgjalds
6. Lagabreytingar skv. 13.gr. laga samtakanna.
7. Kosning stjórnar, varamanna og skoðunarmanna skv. 12. gr. laga samtakanna
8. Ákvörðun um kosningu nefnda skv. 14.gr. laga samtakanna.
9. Önnur mál

12. gr. Skipan stjórnar
Í stjórn Samtakanna skulu kosnir 5 einstaklingar og tveir til vara. Kosið skal í embætti formanns, varaformanns, gjaldkera, ritara, meðstjórnanda og tveggja varamanna í stjórn. Formaður er kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórn með sér verkum. Þá skal einnig kjósa tvo skoðunarmenn.
Framboð skal berast stjórn. Kosningu hljóta þeir er flest atkvæði fá. Verði atkvæði jöfn sker hlutkesti úr.

13. gr. Lagabreytingar
Lagabreytingar má aðeins leggja fram til samþykktar á aðalfundi enda hafi þeirra verið getið í fundarboði. Ná þær aðeins fram að ganga að 2/3 hlutar mættra fullgildra félaga séu þeim samþykkir. Tillögur til lagabreytinga skal senda stjórn eigi síður en tuttugu dögum fyrir aðalfund. Tilkynning um skilafrest lagabreytinga skal birt í fréttariti samtakanna. Allar þær lagabreytingar sem stjórn hafa borist skal hún senda með aðalfundarboði til félaga samtakanna.

14. gr. Nefndir
Á aðalfundi skal kjósa tvo félaga í húsnefnd auk varaformanns sem er sjálfkjörinn formaður nefndarinnar. Nefndin skal sjá um félagsaðstöðu í samráði við stjórn.

15. gr. Stjórn
Formaður kveður til stjórnarfunda ef þörf krefur eða ef stjórnarmeðlimur óskar þess enda hafi hann áður gert grein fyrir fundarefni. Tryggt skal að stjórn geti komið saman með stuttum fyrirvara. Forfallist aðalmaður í stjórn eða hættir störfum skal kalla til varamann. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum, þó er ályktun því aðeins lögleg að tveir stjórnarmenn hið fæsta samþykki hana. Stjórn hefur á hendi allar framkvæmdir milli aðalfunda, hefur eftirlit með nefndum og kemur fram fyrir hönd samtakanna.

16. gr. Aukaaðalfundur
Stjórn kveður til aukaaðalfundar þegar þess er þörf eða a.m.k. 1/5 hluti fullgildra félaga samtakanna óski þess enda geri þeir áður grein fyrir fundarefni. Til aukaaðalfundar skal boða á sama hátt og til aðalfundar.

17. gr. Slit
Samtökunum verður aðeins slitið á aðalfundi og til þess þarf samþykki 3/4 hluta mætra fullgildra félaga. Fundur sá er samtökunum slítur ráðstafar eigum þeirra.

Þannig samþykkt eftir breytingar á aðalfundi 18. apríl 2009.